sunnudagur, 12. janúar 2014

Túnfiskbollur (Bolinhas de Atum) með tómathrísgrjónum (Arroz de Tomate), tómat-lauksalati (Salada de Tomate e cebola) og piri-piri kokteilsósu


Í kvöld var portúgalskt þema hjá mér og börnunum og unnið með það hráefni sem var til á heimilinu. Maturinn var litríkur og fallegur og börnin mín sem taka öllum mat með fyrirvara borðuðu allt saman með bestu lyst! Þetta er ódýr og hollur matur líkt og á við um flesta klassíska portúgalska rétti sem hafðir eru á borðum á venjulegu heimili. Í þetta sinn slepptum við því að hafa portúgalskan forrétt og eftirrétt, enda á slíkt meira við þegar aðalmáltíð dagsins er í hádeginu eins og tíðkast í Portúgal.
 
Fyrrum tengdamóðir mín frá Angola sagði mér eitt sinn að í því landi væri aldrei borðað kjöt að kvöldi til - aðeins fiskur eða grænmeti, kjöt ætti aðeins að borða í hádegismat. Mér þótti þetta mjög lógískt þar sem kjöt er þungmeltara en fiskur og grænmeti og eflaust betra fyrir líkamann að borða léttar svona rétt fyrir svefninn. Spurning um að reyna að fylgja þessu á nýju ári? Allavega þá var máltíðin okkar í léttari kantinum.
 
Í Portúgal eru djúpsteiktar bollur sem búnar eru í grunninn úr kartöflum, eggi og brauðmylsnu mjög algengar. Í þær er svo sett túnfiskur, ostur, skinka, rækjur, saltfiskur ofl. Þær kallast ýmist 'bolinhas' eða 'pasteis'. Þetta fyrirbrigði er einnig þekkt á Spáni undir nafninu 'croquetas' og er svipað.
 
Ég ákvað að bregða örlítið útaf hefðinni og nota sætar kartöflur í mínar túnfiskbollur sem kom virkilega vel út.
 

Túnfiskbollur (Bolinhas de Atum)

2 dósir túnfiskur
1 meðalstór laukur
1/2 bolli steinselja
1 lítil sæt kartafla soðin
2 egg
1 bolli brauðmylsna
salt og pipar eftir smekk
olía til steikingar
 
 
Þessi uppskrift gerir u.þ.b. 50 litlar bollur.
 
Laukurinn er settur í blandara og hakkaður niður, svo er kartöflunni, brauðmylsnunni og eggjunum bætt saman við og maukað. Að síðustu er túnfisk og steinselju bætt saman við og blandað saman við. Saltað og piprað eftir smekk.
 
 
Olían er hituð í potti eða pönnu og á meðan hún er að hitna eru hnoðaðar litlar bollur úr deginu.
 
 
 Það er ágætt að setja eina í olíuna til að prófa og sjá hvort hún er orðin nógu heit. Þegar olían er orðin nógu heit (ekki of heit svo þær brenni ekki að utan áður en þær eru tilbúnar) eru bollurnar settar í og steiktar þar til þær verða gullnar á lit.
 
 
 

Piri-piri kokteilsósa

1 tsk. piri-piri mauk (sjá fyrri færslu)
3 msk majones
1 msk tómatsósa
 
Öllu hrært saman í litla skál og haft með túnfiskbollunum - bara dásamlegt!
 


Engin ummæli:

Skrifa ummæli