sunnudagur, 12. janúar 2014

Mangómús (Mousse de Manga)

Ég held ég hafi aldrei komið inn á veitingastað í Portúgal sem ekki hefur boðið upp á Mousse de manga sem einan af eftirréttum staðarins. Ýmsar útgáfur eru til af þessum himneska, sæta og ferska eftirrétti en hér deili ég með ykkur einni sem er ótrúlega einföld, fljótleg og góð. Oftast er gelatín sett saman við svo músin haldi sér betur en með því að nota gríska jógúrt og kæla vel þá verður áferðin svipuð.

Mangómús (Mousse de Manga)


2 bollar mangó
1 dós niðursoðin mjólk
1 dós (350 g) grísk jógúrt

Ég notaði frosinn mangó í bitum sem ég afþýddi og pressaði í gegnum sigti (einnig er hægt að hakka í matvinnsluvél eða setja í gegnum djúsvél, aðalmálið að ekki séu tægjur í músinni).


Öllu er svo blandað saman og þeytt í smá stund til að fá loft í blönduna. Niðursoðna mjólk má fá í dós í t.d. Kosti eða asískum búðum. Ef erfitt reynist að nálgast niðursoðna mjólk þá er lítið mál að búa hana til. Blandið saman 6 dl af mjólk á móti 4 dl af sykri og sjóðið við vægan hita og hrærið stöðugt í þar til hún þykknar og seigfljótandi. Þolinmæði er það sem gildir þar sem þetta getur tekið rúman hálftíma eða svo. 
 
 
Blöndunni er svo hellt í glös og látið standa í kæli í a.m.k. klukkustund áður en borið er fram. Fallegt er svo að skreyta með ferskri myntu og nokkrum bitum af ferskum eða frosnum mangó. Bon Appetit!
 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli