sunnudagur, 26. október 2014

Pasteis de nata


Þannig er nú það að það er fátt dásamlegra sætabrauð til í heiminum sem jafnast á við pastel de nata! Þessu kynntist ég fljótlega eftir að ég kom fyrst til Portúgals fyrir hreina tilviljun og það var ekki aftur snúið - hefur verið mitt uppáhaldssætabrauð síðan. Sú upplifun að stoppa í bakaríslúgu eftir bar á laugardagskvöldi og fá nýbakaðar og heitar pasteis de nata með kanilsykri er hápunktur helgarinnar! Þessar bökur eru þjóðarstolt Portúgals og ekki að ástæðulausu - þær eru algerlega himneskar. Uppruni þessa sætabrauðs er rakinn til munkaklausturs í Belém (í Lissabon) en þar má finna bakarí eða Pasteleria sem selur þær undir nafninu Pastel Belém og hafa einkarétt á því nafni. Annars staðar ganga þær undir nafninu Pastel de nata. Uppskriftin að Pastel Belém er leynileg og aðeins örfáir sem vita hana en þær eru bestar, allt annað er því í raun bara eftirlíkingar. Allir eiga sína sér uppskrift að þessum sætabrauðum og ég deili hér þeirri sem hefur reynst mér best. Þetta er ofureinfalt og ofurgott!
 

Pasteis de nata

1 pk smjördeig
500 ml rjómi
9 eggjarauður
10 msk sykur
sítrónubörkur
kanilstöng
kanilsykur
 
 
 
 
Rjómi, eggjarauður og sykur er hrært saman í pott. Þegar það hefur blandast er sítrónubörkurinn og kanilstöngin sett útí og látið malla við vægan hita þar til það þykknar. Athugið að skræla aðeins ysta lagið af sítrónunni og í einum heilum strimli svo hægt sé að fjarlægja hann á einfaldan hátt þegar blandan er tilbúin. Þetta þykknar og verður að svona 'custard'.
 
 
Því næst er köldum smjördeigsplötum rúllað upp hverri fyrir sig langsum og 1 plata dugar ca í 3 hólf í svona muffinsform eins og á myndinni. Hægt er einnig að hafa þær í minni formum sem hentar vel í kokteilboð t.d. og er þá hver baka ca einn munnbiti. Þetta er hins vegar standard stærð eins og maður fær þær í bakaríi í Portúgal.
 
Þegar búið er að klæða formin með smjördeigi (passa að hafa það frekar þunnt því smjördeigið þenst út við bakstur) þá er fyllingin sett í og fyllt upp ca 2/3 af forminu því þetta lyftir sér töluvert í bakstrinum þótt það leggist svo aftur saman þegar það kemur út og kólnar.
 
Bökurnar eru svo settar í ofn við 250°c í 25 - 30 mínútur eða þar til þær hafa bakast. Fullbakaðar hafa þær fengið á sig þessa dásamlega brúnu bletti á toppinn sem einkennir pastel de nata. Þegar þær koma heitar úr ofninum finnst mér dásamlegt að strá kanilsykri yfir þær en það fer eftir smekk.
Bon Appetit!
 
 
 



Engin ummæli:

Skrifa ummæli