Um mig.


Ég heiti Svana og er lögfræðingur og þriggja barna móðir með áhuga á öllu sem viðkemur mat. Ég kom til Portúgal í fyrsta sinn 2006 og heillaðist af landi og þjóð og þá sér í lagi matarmenningunni. Portúgalir hafa unun af því að deila menningu sinni með útlendingum og fræða þá um allt það merkilegasta sem þeim finnst um sitt heimaland. Matur er mjög ofarlega á þeim lista svo ekki sé talað um fótboltann!
Portúgalskur matur er að mínu mati besti matur í heimi, einkum fiskurinn. Ferskleikinn er í fyrirrúmi og uppbygging líkt og við þekkjum á Íslandi - allt á diskinn í einu sem er til dæmis ólíkt matnum hinum megin á íberíuskaganum. Þennan mat hef ég borðað og prófað mig áfram í að elda síðustu ár og ákvað í upphafi árið 2014 að reyna að koma þessu öllu í blogg þar sem mig langar svo að fleiri Íslendingar kynnist þessum dásamlega mat. Bloggið hefur nú gengið heldur brösuglega en þar sem ég hef nú nýverið (2015) flutt aftur á fornar slóðir og lífið aftur farið að snúast um mat allan daginn frá morgni til kvölds verður vonandi breyting á og fleiri uppskriftir fara að bætast við.
Ég ákvað semsagt á þessu ári (2015) að venda kvæðum í kross, henda lífi mínu upp í loft og fara í framhaldsnám í lögfræði við kaþólska háskólann í Lissabon og njóta þess að búa aftur í Portúgal. Hvað mun gerast í framhaldinu kemur svo í ljós.
Ég hef komið mér fyrir í borg sunnan við ánna eins og sagt er sem heitir Setúbal þar sem búa um 120 þúsund manns og er í um 40 mínútna fjarlægð frá Lissabon. Hér er gríðarleg náttúrufegurð og dásamlegar strendur en vegna mikils atvinnleysis síðustu árin er mikill fólksflótti héðan ýmist suður eða norður eða hugsanlega mest til annarra landa í atvinnuleit. Hér væri hæglega hægt að byggja upp öflugri túrisma til að efla samfélagið en af einhverjum ástæðum hefur það ekki orðið. Á meðan nýt ég þessarar dásemdarhéraðs og sit ein að súpunni :)
Her bý ég ásamt kærasta og barnsföður og yngstu dóttur minni sem er 6 ára og mun byrja í skóla í fyrsta sinn í föðurlandinu sínu. Portúgalskan gengur ágætlega hjá henni og verður hún eflaust orðin altalandi fyrir jól.
Ég hef nokkurra ára reynslu í að þurfa að tjá sig á málinu en stefnir að því að auka hæfnina næstu misseri og læra meir um land og þjóð.