laugardagur, 8. nóvember 2014

Saltfiskur steiktur á portúgalska vísu (Bacalhau á Brás)

Þessi réttur er líklega minn uppáhalds saltfiskréttur frá Portúgal og þá eru þeir margir sem mér þykir góðir. Ég man þegar ég fékk þennan rétt í fyrsta sinn á litlum, dæmigerðum portúgölskum veitingastað í hádeginu á sólríkum degi í Setúbal. Mér leið eins og ég væri að borða íslenskan plokkfisk, nema bara miklu betri plokkfisk en ég hafði nokkurn tíman bragðað áður!

Saltfiskur er enginn mánudagsmatur í Portúgal þar sem hann er nokkuð dýr, en þegar halda skal veislu jafnast fátt á við saltfiskrétt sem portúgalir kunna sko aldeilis að matreiða á ýmsa vegu. Oft er sagt að það séu 365 mismunandi aðferðir við að elda saltfisk í Portúgal og ég efast ekki um að það sé satt. Á jólunum borða þeir þó salfiskinn soðinn með kartöflum eins og ég man eftir að hafa fengið hann á Íslandi sem barn og ekki þótt spennandi. Þannig er hann nú samt borðaður á aðfangadagskvöld í Portúgal og þykir ómissandi hluti jólahaldsins.



Saltfiskur steiktur á portúgalska vísu (Bacalhau á Brás)

um 1/2 kg sólþurrkaður saltfiskur
2 lárviðarlauf
1 stórt box Pick-nick
1 l mjólk
3 - 4 hvítlauksrif
1 meðalstór laukur
6 egg
svartur pipar
olía til steikingar
eitt búnt steinselja
svartar ólífur

Fyrst er nauðsynlegt að útvatna saltfiskinn. Það geri ég annað hvort með því að láta hann liggja í bleyti í ca sólahring og skipta reglulega um vatn eða ef ég er ekki nógu skipulögð þá læt ég hann í pott undir rennandi vatn í ca 3 - 4 klukkutíma. Þetta er aðeins meira mál en að kaupa hann tilbúinn útvatnaðan í búð en trúið mér það er algerlega þess virði. Saltfiskurinn er svo miklu, miklu betri svona og hefur áferðina og þéttleikann sem þarf í portúgalska saltfiskrétti. Þegar bitarnir hafa verið útvatnaðir eru þeir settir í pott með mjólk (ef mjólkin nær ekki alveg að hylja bitana í pottinum er allt í lagi að bæta smá vatni við svo fiskurinn sé í kafi) og lárviðarlaufum. Suðan er látin koma upp og fiskurinn síðan látinn malla í ca 15 mínútur við vægan hita áður en slökkt er undir. 


Þegar bitarnir eru soðnir eru þeirr veiddir upp úr soðinu og látnir kólna aðeins svo hægt sé með góðu móti að pilla fiskinn frá roði og beini. Svo er fiskurinn mulinn í sundur - svona næstum stappaður svo hann sé ekki í of stórum bitum.


Þegar það er klárt er hægt að hefjast handa við að útbúa yndislegt og ljúffengt bacalhau á brás!


Fyrst er laukur og hvítlaukur skorið smátt og mýkt á pönnu í olíu. Því næst er saltfisknum sem búið er að mylja í sundur bætt við ásamt kartöflustráum og eggjum (passið að hafa pönnuna ekki of heita í þessu skrefi svo eggin nái að þekja fiskinn vel áður en þau steikjast í gegn) og blandað vel saman. "Brás" stendur fyrir að eitthvað sé létt steikt eða eins og á ensku kallast "braised" og því þarf að passa að hafa ekki of háan hita við steikinguna og hræra vel í á meðan. Þegar rétturinn er orðinn nokkuð þurr (þ.e. eggin hafa steikst) og orðinn nokkuð þéttur í sér er saxaðri steinselju bætt við ásamt ólífum. Skemmtilegt er að bera réttinn á borð í fallegu fati þar sem tómatsneiðum hefur verið raðað ofaná.


Gott að bera fram með góðu salati. Bon Appetit!


Engin ummæli:

Skrifa ummæli