laugardagur, 11. janúar 2014

Piri-piri

Það er vel við hæfi að fyrsta uppskriftarfærslan sé að piri-piri sósu. Piri-piri er pipar úr chili fjölskyldunni sem er lítill (um 3-5 cm að lengd) og afar sterkur. Hann barst að því er talið er til Portúgal með skipum Kólumbusar og þaðan til portúgölsku nýlendnanna í Afríku, nánar tiltekið Angola og Mosambique. Hann er stundum kallaður 'African bird-eye chili' eða 'African devil'. Í Portúgal er hann yfirleitt kallaður 'piri-piri' eða 'malagueta'. Í Portúgal er 'piri-piri' einnig notað yfir chili olíur og sósur sem megin uppistaðan er þessi litli chilipipar.
 
 
Piri-piri olía og sósur eða mauk er staðalbúnaður í portúgölsku eldhúsi. Þegar ég flutti til Portúgal fékk ég að gjöf frá hvorki meira né minna en þremur konum heimatilbúið piri-piri mauk og ekkert þeirra eins. Allar uppskriftirnar voru hernaðarleyndarmál og í Portúgal geta allir verið nokkuð sammála um að mamma þeirra geri besta piri-piri-ið!
 
Ýmis tilbrigði eru til af þessu fræga mauki sem er notað með kjöti, fiski, í pottrétti, sem meðlæti og í raun hvað sem er. Hér fylgir með ein uppskrift af hefðbundnu piri-piri mauki en hægt er að leika sér með þetta og breyta og bæta að vild. Svo er bara að passa að enginn komist yfir uppskriftina þegar hún hefur verið masteruð ;-)
 
Í maukið má að sjálfsögðu nota aðrar tegundir af chili ef ekki er hægt að nálgst piri-piri chili sem ég hef ekki getað hér á landi. Ekki er þó mikið mál að rækta sitt eigið piri-piri tré í glugganum heima þar sem chili plöntur eru bæði afar falleg stofublóm og það harðger að þær hafa lifað af ýmislegt á mínu heimili. Ég mæli hiklaust með að fólk rækti sitt eigið chili (þá er líka gaman að vera með nokkrar mismunandi tegundir)
 
 

Piri-piri mauk:

20 piri-piri chili ávextir
1 hvítlauksrif
1 msk paprikuduft
safi úr 1/2 sítrónu
1-2 bollar af olíu
Salt
 
 
Chili ávextir með fræjum eða fræhreinsaðir (séu þeir fræhreinsaðir verður maukið mildara), hvítlauksrif, paprikuduft og sítrónusafi er sett saman í blandara og hakkað saman. Olían er síðan sett saman við þar til maukið verður silkimjúkt. Það er misjafnt hversu þunnt hver og einn vill hafa maukið og fer því magn olíu eftir því. Saltað eftir smekk - venjulega um hálf tsk miðað við magn.
Því næst er maukið sett í hreina krukku (gott er að láta hana í 120°c heitan ofn í um 10 mín áður en maukið er sett í). Þetta ætti svo að geymast í ískáp í um það bil 3 mánuði.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli