sunnudagur, 12. janúar 2014

Tómathrísgrjón (Arroz de Tomate)

Í Portúgal hef ég nánast aldrei fengið bara venjulega soðin hrísgrjón sem meðlæti. Oft eru þau soðin og blandað saman við pikklað grænmeti eða soðin með grænmeti, ýmsu sjávarfangi osfrv. Tómathrísgrjón er afar dæmigerð eldun á hrísgrjónum sem meðlæti og ef bætt er við það skelfisk og ýmsu blönduðu sjávarfangi er maður kominn með dýrindis sjávarrétt sem sómir sér vel sem eðalforréttur. Eitt er víst að tómathrísgrjón eru vinsæl á mínu heimili og börnin borða þau af bestu lyst.
 
 

Tómathrísgrjón (Arroz de Tomate) 

 
1/2 laukur
1 hvítlauksrif
2 tómatar ferskir niðurskornir (afhýddir)
1 tsk. tómatkraftur
2 msk ólífuolía
1 bolli hrísgrjón
1 teningur kjúklingakraftur
4 bollar vatn
salt og pipar eftir smekk
steinselja og ólífur
 
Skerið lauk og hvítlau smátt og setjið í pott ásamt ólífuolíunni og svitið. Næst er tómötum og tómatkrafti bætt saman við ásamt hrísgrjónum og leyft að hitna í smá stund áður en vatni og krafti er bætt saman við.
 
Suðan er látin koma upp, þá er lækkað undir og grjónunum leyft að malla þar til þau eru tilbúin. Mikilvægt er að hræra vel og reglulega í grjónunum svo þau festist ekki við botninn en þau eru soðin í opnum potti allan tímann. Að lokum er steinselju og ólífum stráð yfir.
 

Flott meðlæti með hverju sem er - kjöti og fisk. Annað nauðsynlegt meðlæti á portúgölsku matarborði er salat. Einfaldleikinn er í fyrirrúmi þegar kemur að salatinu í Portúgal. Salat er ekki borið á borð án þess að búið sé að setja yfir olíu, edik og salt. Standard!

Í Portúgal fást dýrindis tómatar, stórir rauðir og bragðmiklir í salat en einnig grænir, harðir og súrir sem notaðir eru í heitan mat. Það sem að mínu mati hefur komist næst þessum dýrindis tómötum eru tómatar sem ég kynntist hér fyrir norðan frá Hveravöllum í Reykjahverfi - mæli með þeim í þetta einfalda og góða tómatsalat.

Tómat-lauksalat (Salada de tomate e cebola)

 
2-3 tómatar
2 tsk saxaður laukur
1/2 bolli svartar ólífur
1 tsk oregano
1 tsk steinselja
extra virgin ólífuolía
hvítvínsedik
salt

Tómatarnir eru skornir í þunnar sneiðar (einnig hægt að skera þá í bita og bera fram í skál) og raðað á disk. Lauknum er dreift yfir ásamt ólífunum. Næst er olíunni dreift yfir og edikinu (gott að hafa í huga viðmiðið 1af ediki á móti 2 af olíu). Að síðustu er steinselju og oregano dreif yfir og borið fram ásamt tómathrísgrjónum.

Bon appetit!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli