þriðjudagur, 14. janúar 2014

Caldo Verde


Caldo verde! Þetta nafn verður ekki þýtt - það er bara þannig því þessa súpu ættu allir að þekkja sem hafa einhvern tíman komið til Portúgals. Þýðingin væri svo sem líka bara hálf asnaleg eða 'grænsoð' ... þá er caldo verde bara best! Þetta er einn af þjóðarréttum Portúgala sem er uppruninn frá norður Portúgal en hefur þaðan breiðst út um allt land og er sú súpa sem er hvað vinsælust sem forréttur á heimilum manna enda einföld, fljótleg og góð. Upprunalega súpan samanstendur af grænu káli (hér á landi fæst blöðrukál sem svipar til þess sem notað er í Portúgal), olíu, kartöflum, vatni, salti og pipar. Eftir því sem sunnar dregur er algengt að einnig sé bætt við lauk og hvítlauk og síðan chouriço sett í skálina áður en súpunni er helt í.
 

Caldo Verde

1/2 kg kartöflur
1 meðalstór laukur
2 hvítlauksrif
2 msk ólífuolía
2 l vatn
blöðrukál, hvítkál eða grænkál skorið í mjög fína strimla (ca 1 bolli)
salt og pipar
chouriço
 
 
Kartöflur eru afhýddar og skornar í teninga, laukur og hvítlaukur skorið fínt og allt sett í pott ásamt olíu og smá salti. Þetta er steikt og hrært í þar til laukurinn hefur mýkst en þá er vatninu bætt við og látið sjóða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Þá er súpan þykkt með því að mauka allt saman með töfrasprota (má einnig sía vatnið frá og setja allt í blandara og mauka, setja svo saman við vatnið aftur).
 
 
 Að síðustu er fínt skorið kálið sett saman við súpuna og leyft að mýkjast í nokkrar mínútur áður en súpan er borin fram. Ég notaði hvítkál þar sem ég átti það til, súpan verður þó ekki eins fallega græn eins og þegar blöðrukál eða grænkál er notað.
 

 
Ég notaðist við chorrizo álegg úr Nettó í þetta sinn en ég mæli með að ná sér í góða chorrizo pylsu hjá Pylsugerðarmanninum í Laugalæknum og bera fram með súpunni ásamt góðu brauði.
 
Þetta er súpa sem er verulega notaleg bæði sem forréttur sem og ein og sér á myrku janúarkvöldi.
Bon Appetit!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli