þriðjudagur, 7. janúar 2014

Gleðilegt nýtt ár!
Þá hef ég tekið fyrsta skrefið í nýju áramótaheiti með því að stofna þessa síðu. Hér er ætlunin að setja inn færslur með fróðleik um portúgalskan mat og matarhefð. Ég veit að matarbloggsklámvæðing ríður yfir landann svo hvers vegna ekki að vera með og bæta í flóruna.

Fyrir þónokkuð mörgum árum greip mig stundarbrálæði í kjölfar skilnaðar og ég hélt sem leið lá til Portúgal, nánar tiltekið til sardínuborgarinnar Setúbal og settist þar að meira og minna í einn vetur. Ætlunin var að koma aftur heim með kandídatsritgerð í lögfræði en það fór þó ekki svo heldur kom ég heim ágætlega talandi á portúgölsku og með matarást á landi og þjóð.

Íslendingar hafa á síðustu áratugum verið afar opnir fyrir nýjungum í mat og kynnst til að mynda vel ítalskri og spænskri matarhefð. Af einhverjum ástæðum hafa íslendingar ekki eins mikla þekkingu á portúgalskri matarhefð. Matarhefð Portúgala hefur sterka tengingu við nýlendutímann og þá staðreynd að krydd, ávextir og grænmeti bárust til Evrópu í gegnum Portúgal þar sem megin siglingaleiðin frá Evrópu til annarra heimsálfa hófst frá Lissabon.
 
Portúgölsk matarhefð minnir um margt á íslenska. Portúgalir borða mikinn fisk með einföldum hætti og á diskinn setja þeir saman fisk eða kjöt, kartöflur og salat! Ólíkt nágrannaþjóðum sínum sem reiða fram einn rétt í einu en kunna ekki þá list sem okkur líkar svo vel að hafa kjöt eða fisk og meðlæti sem spilar með.
 
Hefðbundin portúgölsk máltíð er þó venjulega þríréttuð: súpa í forrétt, aðalréttur með kjöt eða fisk, ávöxtur eða búðingur í desert.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli