Portúgalir borða mikinn fisk og fiskmeti af ýmsu tagi. Hrogn eru vinsæll matur og hægt er að fá hrogn fleiri fiska en bara þorsks. Sardínuhrogn eru t.d. mikið notuð í paté sem þeir gæða sér á með góðu brauði. Þorskhrognin eru borðuð ýmist soðin eða steikt með jómfrúar-ólívuolíu og ediki ásamt kartöflum, góðu salati og brauði. Köld hrogn í salat þykir einnig herramannsmatur. Þegar kemur að fisk og öðru fiskmeti líkar Portúgölum einfaldleikinn og ferskleikinn best líkt og okkur Íslendingum. Í janúar þegar hægt er að fá hrogn í öllum fiskbúðum hér á landi er upplagt að prófa nýjar uppskriftir og t.d. bera þau fram í salati að hætti Portúgala.
Ferskt salat með þorskhrognum (Salada de Ovas de Bacalhau)
500 g ca þorskhrogn
2 lárviðarlauf
1 msk sjávarsalt
1 rauð paprika skorin í teninga
1 græn paprika skorin í teninga
2 hvítlauksrif þunnt sneidd
1/2 laukur þunnt sneiddur
1 pakki kóríander
jómfrúar-ólívuolía og hvítvínsedik
salt og pipar
Fyrst er vatn sett í pott með 1 msk af sjávarsalti og 2 lárviðarlaufum. Hrognin eru sett í vatnið þegar það sýður og látin sjóða í ca 10 mínútur. Þegar hrognin eru tilbúin eru þau færð upp á disk og látin kólna. Paprikurnar, laukurinn og hvítlaukurinn er sett saman á disk eða í skál. Kóríanderið er skorið gróft og bætt við, en neðstu hlutar stilkanna eru skornir frá og fara ekki í salatið (ca 3 cm) (má geyma í frysti til síðari nota t.d. í pottrétti). Þegar hrognin eru orðin köld er himnan tekin utan af og þau skorin í þykkar sneiðar og sett ofan á salatið.
Þegar salatið er komið í skál eða á disk er olíu og ediki dreypt yfir ásamt smá salti og pipar.
Bon Appetit!