laugardagur, 8. nóvember 2014

Saltfiskur steiktur á portúgalska vísu (Bacalhau á Brás)

Þessi réttur er líklega minn uppáhalds saltfiskréttur frá Portúgal og þá eru þeir margir sem mér þykir góðir. Ég man þegar ég fékk þennan rétt í fyrsta sinn á litlum, dæmigerðum portúgölskum veitingastað í hádeginu á sólríkum degi í Setúbal. Mér leið eins og ég væri að borða íslenskan plokkfisk, nema bara miklu betri plokkfisk en ég hafði nokkurn tíman bragðað áður!

Saltfiskur er enginn mánudagsmatur í Portúgal þar sem hann er nokkuð dýr, en þegar halda skal veislu jafnast fátt á við saltfiskrétt sem portúgalir kunna sko aldeilis að matreiða á ýmsa vegu. Oft er sagt að það séu 365 mismunandi aðferðir við að elda saltfisk í Portúgal og ég efast ekki um að það sé satt. Á jólunum borða þeir þó salfiskinn soðinn með kartöflum eins og ég man eftir að hafa fengið hann á Íslandi sem barn og ekki þótt spennandi. Þannig er hann nú samt borðaður á aðfangadagskvöld í Portúgal og þykir ómissandi hluti jólahaldsins.



Saltfiskur steiktur á portúgalska vísu (Bacalhau á Brás)

um 1/2 kg sólþurrkaður saltfiskur
2 lárviðarlauf
1 stórt box Pick-nick
1 l mjólk
3 - 4 hvítlauksrif
1 meðalstór laukur
6 egg
svartur pipar
olía til steikingar
eitt búnt steinselja
svartar ólífur

Fyrst er nauðsynlegt að útvatna saltfiskinn. Það geri ég annað hvort með því að láta hann liggja í bleyti í ca sólahring og skipta reglulega um vatn eða ef ég er ekki nógu skipulögð þá læt ég hann í pott undir rennandi vatn í ca 3 - 4 klukkutíma. Þetta er aðeins meira mál en að kaupa hann tilbúinn útvatnaðan í búð en trúið mér það er algerlega þess virði. Saltfiskurinn er svo miklu, miklu betri svona og hefur áferðina og þéttleikann sem þarf í portúgalska saltfiskrétti. Þegar bitarnir hafa verið útvatnaðir eru þeir settir í pott með mjólk (ef mjólkin nær ekki alveg að hylja bitana í pottinum er allt í lagi að bæta smá vatni við svo fiskurinn sé í kafi) og lárviðarlaufum. Suðan er látin koma upp og fiskurinn síðan látinn malla í ca 15 mínútur við vægan hita áður en slökkt er undir. 


Þegar bitarnir eru soðnir eru þeirr veiddir upp úr soðinu og látnir kólna aðeins svo hægt sé með góðu móti að pilla fiskinn frá roði og beini. Svo er fiskurinn mulinn í sundur - svona næstum stappaður svo hann sé ekki í of stórum bitum.


Þegar það er klárt er hægt að hefjast handa við að útbúa yndislegt og ljúffengt bacalhau á brás!


Fyrst er laukur og hvítlaukur skorið smátt og mýkt á pönnu í olíu. Því næst er saltfisknum sem búið er að mylja í sundur bætt við ásamt kartöflustráum og eggjum (passið að hafa pönnuna ekki of heita í þessu skrefi svo eggin nái að þekja fiskinn vel áður en þau steikjast í gegn) og blandað vel saman. "Brás" stendur fyrir að eitthvað sé létt steikt eða eins og á ensku kallast "braised" og því þarf að passa að hafa ekki of háan hita við steikinguna og hræra vel í á meðan. Þegar rétturinn er orðinn nokkuð þurr (þ.e. eggin hafa steikst) og orðinn nokkuð þéttur í sér er saxaðri steinselju bætt við ásamt ólífum. Skemmtilegt er að bera réttinn á borð í fallegu fati þar sem tómatsneiðum hefur verið raðað ofaná.


Gott að bera fram með góðu salati. Bon Appetit!


fimmtudagur, 30. október 2014

Moscatel de Setúbal

Moscatel de Setúbal

 
 
Íslendingar þekkja helst vínin frá Porto. Þau vín eru framleidd úr þrúgum sem vaxa í Douro héraðinu í norður Portúgal. Þar sem ég bjó nú í Setúbal og á helstu tengsl mín á því svæði (rétt sunnan við Lissabon) þykir mér við hæfi að hefja umfjöllun um portúgölsk vín á að segja ykkur aðeins frá Moscatel sem er mitt uppáhaldseftirréttarvín. Ekki þykir mér heldur verra að fá mér einn slíkan í fordrykk ef svo ber undir.
 
Þekktustu vínin frá Portúgal eru eflaust rósavínið Matteus, Púrtvín og Madeira vín.Moscatel er ekki ósvipað Púrtvíni að því leiti að það er styrkt léttvín og flokkast undir svokölluð sæt eftirréttavín. Moscatel er unnið úr þrúgum sem heita Múskat eða Múskatel og eru þær til bæði rauðar og hvítar. Múskat þrúgur eru afar bragðmiklar og bragðið skilar sér vel í vínið sjálft. Einkennandi er bragð af vínberjum, sítrus og blómum. Sumum þykir það jafnvel of bragðmikið en það verður líkt og púrtvínið mýkra og bragðbetra með aldrinum.
 
Upprunalega var Moscatel búið til úr a.m.k. 67% Múskatþrúgum en undir reglum Evrópusambandsins má víst ekki kalla vínið Moscatel nema það innihaldi að lágmarki 85% Múskatþrúgur. Því eru í raun mikið af Moscatel vínum í dag seld sem "Setúbal" en gæðavínin innihalda 85% af Roxo-Múskatþrúgum sem þykir best.
 
Athugið að einnig er í dag meira af Moscatel sem framleitt er af nokkrum framleiðendum í Douro héraðinu en þær þrúgur eru þó aðeins annað kvæmi Múskatþrúganna en þeirra sem notaðar eru í Moscatel de Setúbal og því ekki sama bragð, ásamt því að allar veðurastæður eru ólíkar í norður Portúgal frá þeim aðstæðum sem skapast í hæðunum við Atlantshafið fyrir mitt landið.
 
José María Da Fonseca er talinn einn elsti framleiðandi Moscatel og helgaði sig þróun og tækninýjungum við framleiðslu á vínum og styrkingu þeirra. Fyrirtækið sem hann stofnaði er enn í dag með stærstu og virtustu vínframleiðenda í Portúgal, en vínframleiðsla fyrirtækisins nær yfir um 700 hektara land, að mestu í Arrabida þjóðgarðinum sem liggur í hæðunum fyrir ofan borgina Setúbal.
 
Því miður fást vínin frá José María Da Fonseca ekki í vínbúðinni á Íslandi, a.m.k. enn sem komið er né heldur Moscatel de Setúbal. Vonandi verður bætt úr því en þangað til þá skora ég á fólk sem á leið um Portúgal eða þau lönd þar sem vínin eru seld (t.d. Noregur og Bretland) að fá sér eina flösku til að smakka.

þriðjudagur, 28. október 2014

Brauðbúðingur (Pudim de Pão)

Þessi eftirréttur er alger snilld þegar nýta þarf brauðafganga heimilisins. Portúgalir eru ekki þekktir fyrir mikla matarsóun og duglegir að nýta allt sem til fellur. Þessi dásamlegi brauðbúðingur er fljótlegt að gera en þarf síðan reyndar að kólna vel í ískáp áður en hægt er að bera fram. Tilvalið að gera kvöldið áður en á að nota hann en fyrirhöfnin er lítil og bragðið svíkur engan.
 
 

Brauðbúðingur (Pudim de pão)

10 - 12 gamlar brauðsneiðar
1 líter mjólk
18 msk sykur
5 egg
sykursýróp (soðið saman sykur og vatn)
 
Byrjið á því að stilla ofninn á 200°. Setjið síðan allt nema sýrópið í matvinnsluvél og blanda vel saman í kekkjalaust deig. Bræðið síðan sykurinn í smá vatni við lágan hita þar til hann breytist í sýróp og smyrjið hringform með gati í miðjunni að innan með sýrópinu. Búðingurinn er síðan settur í formið yfir sýrópið.
Leggið formið í vatnsbað, t.d. í ofnskúffu eða fat með vatni og inn í ofn í ca 40 - 50 mínútur eða þar til búðingurinn er orðinn stífur.
Sett í kæli í 2 tíma þar til búðingurinn er orðinn vel kaldur en þá ætti hann að losna auðveldlega úr forminu. Bon appetit!
 
 
Athugið að magnið af brauði er það sem ræður því hversu þéttur í sér búðingurinn verður og því má auka það ef þið viljið hafa hann þéttari.



Arroz Doce

Arroz doce er sá eftirréttur í Portúgal sem hægt er með góðu móti að segja að sé hefðbundinn hátíðareftirréttur. Hvort heldur sem er um jól, áramót eða bara þegar maður ákveður að hafa fínan eftirrétt að lokinni góðri máltíð. Ekki spillir fyirr að fá sér smá púrtvín með :)


Arroz Doce

125 gr hvít hrísgrjón
6-7 dl vatn
1 msk smjör
150 gr sykur
7-8 dl mjólk
3 eggjarauður
hýði af einni sítrónu
salt
kanilstöng og kanill(duft
)

Fyrst skal setja vatn í pott ásamt salti og láta sjóða. Þegar vatnið síður skal setja grjónin útí. Þegar suðan kemur upp aftur skal sjóða grjónin í 2 mínútur.
 
 
 Á meðan skal sjóða mjólkina í öðrum potti ásamt kanilstöng og sítrónuhýðinu. Þerraðu hrísgrjónin vel og settu þau svo útí sjóðandi mjólkina. Leyfðu þessu svo að malla við vægan hita án pottloks. Þegar hrísgrjónin hafa drukkið í sig mjólkina og farið að líkjast hinum íslenska grjónagraut skaltu slökkva undir og setja sykurinn saman við og hræra vel. Hrærðu síðan hratt smjör og eggjarauður við þar til allt er vel blandað saman - athugið að mikilvægt er að hrærar hratt og hafa grjónin ekki of heit svo eggjarauðurnar hlaupi ekki í kekki. Settu þá aftur smá hita undir í nokkrar mínútur án þess þó að það sjóði og hrærðu í. Við það ætti grauturinn að þykkna aðeins og verða rjómalegri.
 
 
Þegar þetta er tilbúið er grauturinn annað hvort settur í einu lagi á stórt og fallegt fat og skreyttur með kanildufti eða sem er líka skemmtilegt að setja í litlar skálar fyrir hvern og einn og skreyta þær hverja fyrir sig. Bom appetit!,
 

sunnudagur, 26. október 2014

Pasteis de nata


Þannig er nú það að það er fátt dásamlegra sætabrauð til í heiminum sem jafnast á við pastel de nata! Þessu kynntist ég fljótlega eftir að ég kom fyrst til Portúgals fyrir hreina tilviljun og það var ekki aftur snúið - hefur verið mitt uppáhaldssætabrauð síðan. Sú upplifun að stoppa í bakaríslúgu eftir bar á laugardagskvöldi og fá nýbakaðar og heitar pasteis de nata með kanilsykri er hápunktur helgarinnar! Þessar bökur eru þjóðarstolt Portúgals og ekki að ástæðulausu - þær eru algerlega himneskar. Uppruni þessa sætabrauðs er rakinn til munkaklausturs í Belém (í Lissabon) en þar má finna bakarí eða Pasteleria sem selur þær undir nafninu Pastel Belém og hafa einkarétt á því nafni. Annars staðar ganga þær undir nafninu Pastel de nata. Uppskriftin að Pastel Belém er leynileg og aðeins örfáir sem vita hana en þær eru bestar, allt annað er því í raun bara eftirlíkingar. Allir eiga sína sér uppskrift að þessum sætabrauðum og ég deili hér þeirri sem hefur reynst mér best. Þetta er ofureinfalt og ofurgott!
 

Pasteis de nata

1 pk smjördeig
500 ml rjómi
9 eggjarauður
10 msk sykur
sítrónubörkur
kanilstöng
kanilsykur
 
 
 
 
Rjómi, eggjarauður og sykur er hrært saman í pott. Þegar það hefur blandast er sítrónubörkurinn og kanilstöngin sett útí og látið malla við vægan hita þar til það þykknar. Athugið að skræla aðeins ysta lagið af sítrónunni og í einum heilum strimli svo hægt sé að fjarlægja hann á einfaldan hátt þegar blandan er tilbúin. Þetta þykknar og verður að svona 'custard'.
 
 
Því næst er köldum smjördeigsplötum rúllað upp hverri fyrir sig langsum og 1 plata dugar ca í 3 hólf í svona muffinsform eins og á myndinni. Hægt er einnig að hafa þær í minni formum sem hentar vel í kokteilboð t.d. og er þá hver baka ca einn munnbiti. Þetta er hins vegar standard stærð eins og maður fær þær í bakaríi í Portúgal.
 
Þegar búið er að klæða formin með smjördeigi (passa að hafa það frekar þunnt því smjördeigið þenst út við bakstur) þá er fyllingin sett í og fyllt upp ca 2/3 af forminu því þetta lyftir sér töluvert í bakstrinum þótt það leggist svo aftur saman þegar það kemur út og kólnar.
 
Bökurnar eru svo settar í ofn við 250°c í 25 - 30 mínútur eða þar til þær hafa bakast. Fullbakaðar hafa þær fengið á sig þessa dásamlega brúnu bletti á toppinn sem einkennir pastel de nata. Þegar þær koma heitar úr ofninum finnst mér dásamlegt að strá kanilsykri yfir þær en það fer eftir smekk.
Bon Appetit!
 
 
 



fimmtudagur, 27. mars 2014

Angólskur karríkjúklingur (Frango caril Angolano o frango amendoim Angolano)

Jæja, ekki hefur nú iðnin verið mikil við að koma út portúgölsku uppskriftunum mínum en það stendur þó allt til bóta. Ég hef þó verið iðin við að elda marga af mínum uppáhalds réttum frá þessu yndislega landi enda byggir hann á einföldu og fersku hráefni sem yfirleitt er aðgengilegt í flestum stórmörkuðum á Íslandi.
 
Næsta uppskrift á dagskrá var þessi dásamlegi kjúklingaréttur sem ég lærði að elda af tengdaföður mínum fyrrverandi Senhor Lopes! Hann er bæði natinn og góður kokkur sem ég hef lært margt af.
 


Angólskur kjúklingaréttur (Frango amendoim angolano)

1,5 l vatn
2 - 3 msk hveiti
1 kjúklingur í bitum án húðar
200 g hakkaðar jarðhnetur
2 msk kókosolía
1 meðalstór laukur
3-4 hvítlauksrif
1 dós tómatar
1 msk tómatkraftur
1 teningur kjúklingakraftur
2 þurrkaðir piri piri eða chili að eigin vali
Olía
salt
 
Í Portúgal kaupir maður yfirleitt ferskan heilan kjúkling og hlutar hann svo niður í svona pottrétt. Einnig má notast við leggi eða læri án húðar sem hægt er að kaupa ódýrt hér í stórmörkuðum.
 

 
Fyrst er kókosolían hituð í potti og kjúklingabitarnir steiktir í henni eftir að vera velt upp úr hveiti áður. Nóg er að steikja þá þar til ysta lagið hefur eldast og brúnast aðeins. Þá eru þeir settir til hliðar á disk á meðan laukur, chili og hvítlaukur er steikt lítillega í pottinum (gott að bæta örlítið af venjulegri olíu við). Laukurinn á ekki að brúnast heldur bara svitna (verða mjúkur og sætur) og því mikilvægt að hreyfa við þessu reglulega þar til tilbúið. Þá er kjúklingnum aftur skellt út á ásamt öllu hráefninu sem eftir er og látið malla í um hálftíma á lágum hita þar til þetta er tilbúið.
 
 
 
Stundum minnka ég vatnið og set þá kókosmjólk líka sem er voða gott og einnig í stað þess að hakka jarðhnetur þá nota ég líka bara stundum hnetusmjör í staðinn. Þetta er í raun ofur einfaldur og dásamlega góður pottréttur sem krefst aðeins ástar og umhyggju svo úr verði veislumatur sem gott er að bera fram með hrísgrjónum og góðu salati. Bon appetit!
 
 

þriðjudagur, 14. janúar 2014

Ferskt salat með þorskhrognum (Salada de Ovas de Bacalhau)

Portúgalir borða mikinn fisk og fiskmeti af ýmsu tagi. Hrogn eru vinsæll matur og hægt er að fá hrogn fleiri fiska en bara þorsks. Sardínuhrogn eru t.d. mikið notuð í paté sem þeir gæða sér á með góðu brauði. Þorskhrognin eru borðuð ýmist soðin eða steikt með jómfrúar-ólívuolíu og ediki ásamt kartöflum, góðu salati og brauði. Köld hrogn í salat þykir einnig herramannsmatur. Þegar kemur að fisk og öðru fiskmeti líkar Portúgölum einfaldleikinn og ferskleikinn best líkt og okkur Íslendingum. Í janúar þegar hægt er að fá hrogn í öllum fiskbúðum hér á landi er upplagt að prófa nýjar uppskriftir og t.d. bera þau fram í salati að hætti Portúgala.
 


Ferskt salat með þorskhrognum (Salada de Ovas de Bacalhau)

500 g ca þorskhrogn
2 lárviðarlauf
1 msk sjávarsalt
1 rauð paprika skorin í teninga
1 græn paprika skorin í teninga
2 hvítlauksrif þunnt sneidd
1/2 laukur þunnt sneiddur
1 pakki kóríander
jómfrúar-ólívuolía og hvítvínsedik
salt og pipar
 
 
Fyrst er vatn sett í pott með 1 msk af sjávarsalti og 2 lárviðarlaufum. Hrognin eru sett í vatnið þegar það sýður og látin sjóða í ca 10 mínútur. Þegar hrognin eru tilbúin eru þau færð upp á disk og látin kólna. Paprikurnar, laukurinn og hvítlaukurinn er sett saman á disk eða í skál. Kóríanderið er skorið gróft og bætt við, en neðstu hlutar stilkanna eru skornir frá og fara ekki í salatið (ca 3 cm) (má geyma í frysti til síðari nota t.d. í pottrétti). Þegar hrognin eru orðin köld er himnan tekin utan af og þau skorin í þykkar sneiðar og sett ofan á salatið.
 
Þegar salatið er komið í skál eða á disk er olíu og ediki dreypt yfir ásamt smá salti og pipar.
 
 
Bon Appetit!

Caldo Verde


Caldo verde! Þetta nafn verður ekki þýtt - það er bara þannig því þessa súpu ættu allir að þekkja sem hafa einhvern tíman komið til Portúgals. Þýðingin væri svo sem líka bara hálf asnaleg eða 'grænsoð' ... þá er caldo verde bara best! Þetta er einn af þjóðarréttum Portúgala sem er uppruninn frá norður Portúgal en hefur þaðan breiðst út um allt land og er sú súpa sem er hvað vinsælust sem forréttur á heimilum manna enda einföld, fljótleg og góð. Upprunalega súpan samanstendur af grænu káli (hér á landi fæst blöðrukál sem svipar til þess sem notað er í Portúgal), olíu, kartöflum, vatni, salti og pipar. Eftir því sem sunnar dregur er algengt að einnig sé bætt við lauk og hvítlauk og síðan chouriço sett í skálina áður en súpunni er helt í.
 

Caldo Verde

1/2 kg kartöflur
1 meðalstór laukur
2 hvítlauksrif
2 msk ólífuolía
2 l vatn
blöðrukál, hvítkál eða grænkál skorið í mjög fína strimla (ca 1 bolli)
salt og pipar
chouriço
 
 
Kartöflur eru afhýddar og skornar í teninga, laukur og hvítlaukur skorið fínt og allt sett í pott ásamt olíu og smá salti. Þetta er steikt og hrært í þar til laukurinn hefur mýkst en þá er vatninu bætt við og látið sjóða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Þá er súpan þykkt með því að mauka allt saman með töfrasprota (má einnig sía vatnið frá og setja allt í blandara og mauka, setja svo saman við vatnið aftur).
 
 
 Að síðustu er fínt skorið kálið sett saman við súpuna og leyft að mýkjast í nokkrar mínútur áður en súpan er borin fram. Ég notaði hvítkál þar sem ég átti það til, súpan verður þó ekki eins fallega græn eins og þegar blöðrukál eða grænkál er notað.
 

 
Ég notaðist við chorrizo álegg úr Nettó í þetta sinn en ég mæli með að ná sér í góða chorrizo pylsu hjá Pylsugerðarmanninum í Laugalæknum og bera fram með súpunni ásamt góðu brauði.
 
Þetta er súpa sem er verulega notaleg bæði sem forréttur sem og ein og sér á myrku janúarkvöldi.
Bon Appetit!

sunnudagur, 12. janúar 2014

Mangómús (Mousse de Manga)

Ég held ég hafi aldrei komið inn á veitingastað í Portúgal sem ekki hefur boðið upp á Mousse de manga sem einan af eftirréttum staðarins. Ýmsar útgáfur eru til af þessum himneska, sæta og ferska eftirrétti en hér deili ég með ykkur einni sem er ótrúlega einföld, fljótleg og góð. Oftast er gelatín sett saman við svo músin haldi sér betur en með því að nota gríska jógúrt og kæla vel þá verður áferðin svipuð.

Mangómús (Mousse de Manga)


2 bollar mangó
1 dós niðursoðin mjólk
1 dós (350 g) grísk jógúrt

Ég notaði frosinn mangó í bitum sem ég afþýddi og pressaði í gegnum sigti (einnig er hægt að hakka í matvinnsluvél eða setja í gegnum djúsvél, aðalmálið að ekki séu tægjur í músinni).


Öllu er svo blandað saman og þeytt í smá stund til að fá loft í blönduna. Niðursoðna mjólk má fá í dós í t.d. Kosti eða asískum búðum. Ef erfitt reynist að nálgast niðursoðna mjólk þá er lítið mál að búa hana til. Blandið saman 6 dl af mjólk á móti 4 dl af sykri og sjóðið við vægan hita og hrærið stöðugt í þar til hún þykknar og seigfljótandi. Þolinmæði er það sem gildir þar sem þetta getur tekið rúman hálftíma eða svo. 
 
 
Blöndunni er svo hellt í glös og látið standa í kæli í a.m.k. klukkustund áður en borið er fram. Fallegt er svo að skreyta með ferskri myntu og nokkrum bitum af ferskum eða frosnum mangó. Bon Appetit!
 

Tómathrísgrjón (Arroz de Tomate)

Í Portúgal hef ég nánast aldrei fengið bara venjulega soðin hrísgrjón sem meðlæti. Oft eru þau soðin og blandað saman við pikklað grænmeti eða soðin með grænmeti, ýmsu sjávarfangi osfrv. Tómathrísgrjón er afar dæmigerð eldun á hrísgrjónum sem meðlæti og ef bætt er við það skelfisk og ýmsu blönduðu sjávarfangi er maður kominn með dýrindis sjávarrétt sem sómir sér vel sem eðalforréttur. Eitt er víst að tómathrísgrjón eru vinsæl á mínu heimili og börnin borða þau af bestu lyst.
 
 

Tómathrísgrjón (Arroz de Tomate) 

 
1/2 laukur
1 hvítlauksrif
2 tómatar ferskir niðurskornir (afhýddir)
1 tsk. tómatkraftur
2 msk ólífuolía
1 bolli hrísgrjón
1 teningur kjúklingakraftur
4 bollar vatn
salt og pipar eftir smekk
steinselja og ólífur
 
Skerið lauk og hvítlau smátt og setjið í pott ásamt ólífuolíunni og svitið. Næst er tómötum og tómatkrafti bætt saman við ásamt hrísgrjónum og leyft að hitna í smá stund áður en vatni og krafti er bætt saman við.
 
Suðan er látin koma upp, þá er lækkað undir og grjónunum leyft að malla þar til þau eru tilbúin. Mikilvægt er að hræra vel og reglulega í grjónunum svo þau festist ekki við botninn en þau eru soðin í opnum potti allan tímann. Að lokum er steinselju og ólífum stráð yfir.
 

Flott meðlæti með hverju sem er - kjöti og fisk. Annað nauðsynlegt meðlæti á portúgölsku matarborði er salat. Einfaldleikinn er í fyrirrúmi þegar kemur að salatinu í Portúgal. Salat er ekki borið á borð án þess að búið sé að setja yfir olíu, edik og salt. Standard!

Í Portúgal fást dýrindis tómatar, stórir rauðir og bragðmiklir í salat en einnig grænir, harðir og súrir sem notaðir eru í heitan mat. Það sem að mínu mati hefur komist næst þessum dýrindis tómötum eru tómatar sem ég kynntist hér fyrir norðan frá Hveravöllum í Reykjahverfi - mæli með þeim í þetta einfalda og góða tómatsalat.

Tómat-lauksalat (Salada de tomate e cebola)

 
2-3 tómatar
2 tsk saxaður laukur
1/2 bolli svartar ólífur
1 tsk oregano
1 tsk steinselja
extra virgin ólífuolía
hvítvínsedik
salt

Tómatarnir eru skornir í þunnar sneiðar (einnig hægt að skera þá í bita og bera fram í skál) og raðað á disk. Lauknum er dreift yfir ásamt ólífunum. Næst er olíunni dreift yfir og edikinu (gott að hafa í huga viðmiðið 1af ediki á móti 2 af olíu). Að síðustu er steinselju og oregano dreif yfir og borið fram ásamt tómathrísgrjónum.

Bon appetit!

Túnfiskbollur (Bolinhas de Atum) með tómathrísgrjónum (Arroz de Tomate), tómat-lauksalati (Salada de Tomate e cebola) og piri-piri kokteilsósu


Í kvöld var portúgalskt þema hjá mér og börnunum og unnið með það hráefni sem var til á heimilinu. Maturinn var litríkur og fallegur og börnin mín sem taka öllum mat með fyrirvara borðuðu allt saman með bestu lyst! Þetta er ódýr og hollur matur líkt og á við um flesta klassíska portúgalska rétti sem hafðir eru á borðum á venjulegu heimili. Í þetta sinn slepptum við því að hafa portúgalskan forrétt og eftirrétt, enda á slíkt meira við þegar aðalmáltíð dagsins er í hádeginu eins og tíðkast í Portúgal.
 
Fyrrum tengdamóðir mín frá Angola sagði mér eitt sinn að í því landi væri aldrei borðað kjöt að kvöldi til - aðeins fiskur eða grænmeti, kjöt ætti aðeins að borða í hádegismat. Mér þótti þetta mjög lógískt þar sem kjöt er þungmeltara en fiskur og grænmeti og eflaust betra fyrir líkamann að borða léttar svona rétt fyrir svefninn. Spurning um að reyna að fylgja þessu á nýju ári? Allavega þá var máltíðin okkar í léttari kantinum.
 
Í Portúgal eru djúpsteiktar bollur sem búnar eru í grunninn úr kartöflum, eggi og brauðmylsnu mjög algengar. Í þær er svo sett túnfiskur, ostur, skinka, rækjur, saltfiskur ofl. Þær kallast ýmist 'bolinhas' eða 'pasteis'. Þetta fyrirbrigði er einnig þekkt á Spáni undir nafninu 'croquetas' og er svipað.
 
Ég ákvað að bregða örlítið útaf hefðinni og nota sætar kartöflur í mínar túnfiskbollur sem kom virkilega vel út.
 

Túnfiskbollur (Bolinhas de Atum)

2 dósir túnfiskur
1 meðalstór laukur
1/2 bolli steinselja
1 lítil sæt kartafla soðin
2 egg
1 bolli brauðmylsna
salt og pipar eftir smekk
olía til steikingar
 
 
Þessi uppskrift gerir u.þ.b. 50 litlar bollur.
 
Laukurinn er settur í blandara og hakkaður niður, svo er kartöflunni, brauðmylsnunni og eggjunum bætt saman við og maukað. Að síðustu er túnfisk og steinselju bætt saman við og blandað saman við. Saltað og piprað eftir smekk.
 
 
Olían er hituð í potti eða pönnu og á meðan hún er að hitna eru hnoðaðar litlar bollur úr deginu.
 
 
 Það er ágætt að setja eina í olíuna til að prófa og sjá hvort hún er orðin nógu heit. Þegar olían er orðin nógu heit (ekki of heit svo þær brenni ekki að utan áður en þær eru tilbúnar) eru bollurnar settar í og steiktar þar til þær verða gullnar á lit.
 
 
 

Piri-piri kokteilsósa

1 tsk. piri-piri mauk (sjá fyrri færslu)
3 msk majones
1 msk tómatsósa
 
Öllu hrært saman í litla skál og haft með túnfiskbollunum - bara dásamlegt!
 


laugardagur, 11. janúar 2014

Piri-piri

Það er vel við hæfi að fyrsta uppskriftarfærslan sé að piri-piri sósu. Piri-piri er pipar úr chili fjölskyldunni sem er lítill (um 3-5 cm að lengd) og afar sterkur. Hann barst að því er talið er til Portúgal með skipum Kólumbusar og þaðan til portúgölsku nýlendnanna í Afríku, nánar tiltekið Angola og Mosambique. Hann er stundum kallaður 'African bird-eye chili' eða 'African devil'. Í Portúgal er hann yfirleitt kallaður 'piri-piri' eða 'malagueta'. Í Portúgal er 'piri-piri' einnig notað yfir chili olíur og sósur sem megin uppistaðan er þessi litli chilipipar.
 
 
Piri-piri olía og sósur eða mauk er staðalbúnaður í portúgölsku eldhúsi. Þegar ég flutti til Portúgal fékk ég að gjöf frá hvorki meira né minna en þremur konum heimatilbúið piri-piri mauk og ekkert þeirra eins. Allar uppskriftirnar voru hernaðarleyndarmál og í Portúgal geta allir verið nokkuð sammála um að mamma þeirra geri besta piri-piri-ið!
 
Ýmis tilbrigði eru til af þessu fræga mauki sem er notað með kjöti, fiski, í pottrétti, sem meðlæti og í raun hvað sem er. Hér fylgir með ein uppskrift af hefðbundnu piri-piri mauki en hægt er að leika sér með þetta og breyta og bæta að vild. Svo er bara að passa að enginn komist yfir uppskriftina þegar hún hefur verið masteruð ;-)
 
Í maukið má að sjálfsögðu nota aðrar tegundir af chili ef ekki er hægt að nálgst piri-piri chili sem ég hef ekki getað hér á landi. Ekki er þó mikið mál að rækta sitt eigið piri-piri tré í glugganum heima þar sem chili plöntur eru bæði afar falleg stofublóm og það harðger að þær hafa lifað af ýmislegt á mínu heimili. Ég mæli hiklaust með að fólk rækti sitt eigið chili (þá er líka gaman að vera með nokkrar mismunandi tegundir)
 
 

Piri-piri mauk:

20 piri-piri chili ávextir
1 hvítlauksrif
1 msk paprikuduft
safi úr 1/2 sítrónu
1-2 bollar af olíu
Salt
 
 
Chili ávextir með fræjum eða fræhreinsaðir (séu þeir fræhreinsaðir verður maukið mildara), hvítlauksrif, paprikuduft og sítrónusafi er sett saman í blandara og hakkað saman. Olían er síðan sett saman við þar til maukið verður silkimjúkt. Það er misjafnt hversu þunnt hver og einn vill hafa maukið og fer því magn olíu eftir því. Saltað eftir smekk - venjulega um hálf tsk miðað við magn.
Því næst er maukið sett í hreina krukku (gott er að láta hana í 120°c heitan ofn í um 10 mín áður en maukið er sett í). Þetta ætti svo að geymast í ískáp í um það bil 3 mánuði.

þriðjudagur, 7. janúar 2014

Gleðilegt nýtt ár!
Þá hef ég tekið fyrsta skrefið í nýju áramótaheiti með því að stofna þessa síðu. Hér er ætlunin að setja inn færslur með fróðleik um portúgalskan mat og matarhefð. Ég veit að matarbloggsklámvæðing ríður yfir landann svo hvers vegna ekki að vera með og bæta í flóruna.

Fyrir þónokkuð mörgum árum greip mig stundarbrálæði í kjölfar skilnaðar og ég hélt sem leið lá til Portúgal, nánar tiltekið til sardínuborgarinnar Setúbal og settist þar að meira og minna í einn vetur. Ætlunin var að koma aftur heim með kandídatsritgerð í lögfræði en það fór þó ekki svo heldur kom ég heim ágætlega talandi á portúgölsku og með matarást á landi og þjóð.

Íslendingar hafa á síðustu áratugum verið afar opnir fyrir nýjungum í mat og kynnst til að mynda vel ítalskri og spænskri matarhefð. Af einhverjum ástæðum hafa íslendingar ekki eins mikla þekkingu á portúgalskri matarhefð. Matarhefð Portúgala hefur sterka tengingu við nýlendutímann og þá staðreynd að krydd, ávextir og grænmeti bárust til Evrópu í gegnum Portúgal þar sem megin siglingaleiðin frá Evrópu til annarra heimsálfa hófst frá Lissabon.
 
Portúgölsk matarhefð minnir um margt á íslenska. Portúgalir borða mikinn fisk með einföldum hætti og á diskinn setja þeir saman fisk eða kjöt, kartöflur og salat! Ólíkt nágrannaþjóðum sínum sem reiða fram einn rétt í einu en kunna ekki þá list sem okkur líkar svo vel að hafa kjöt eða fisk og meðlæti sem spilar með.
 
Hefðbundin portúgölsk máltíð er þó venjulega þríréttuð: súpa í forrétt, aðalréttur með kjöt eða fisk, ávöxtur eða búðingur í desert.