fimmtudagur, 27. mars 2014

Angólskur karríkjúklingur (Frango caril Angolano o frango amendoim Angolano)

Jæja, ekki hefur nú iðnin verið mikil við að koma út portúgölsku uppskriftunum mínum en það stendur þó allt til bóta. Ég hef þó verið iðin við að elda marga af mínum uppáhalds réttum frá þessu yndislega landi enda byggir hann á einföldu og fersku hráefni sem yfirleitt er aðgengilegt í flestum stórmörkuðum á Íslandi.
 
Næsta uppskrift á dagskrá var þessi dásamlegi kjúklingaréttur sem ég lærði að elda af tengdaföður mínum fyrrverandi Senhor Lopes! Hann er bæði natinn og góður kokkur sem ég hef lært margt af.
 


Angólskur kjúklingaréttur (Frango amendoim angolano)

1,5 l vatn
2 - 3 msk hveiti
1 kjúklingur í bitum án húðar
200 g hakkaðar jarðhnetur
2 msk kókosolía
1 meðalstór laukur
3-4 hvítlauksrif
1 dós tómatar
1 msk tómatkraftur
1 teningur kjúklingakraftur
2 þurrkaðir piri piri eða chili að eigin vali
Olía
salt
 
Í Portúgal kaupir maður yfirleitt ferskan heilan kjúkling og hlutar hann svo niður í svona pottrétt. Einnig má notast við leggi eða læri án húðar sem hægt er að kaupa ódýrt hér í stórmörkuðum.
 

 
Fyrst er kókosolían hituð í potti og kjúklingabitarnir steiktir í henni eftir að vera velt upp úr hveiti áður. Nóg er að steikja þá þar til ysta lagið hefur eldast og brúnast aðeins. Þá eru þeir settir til hliðar á disk á meðan laukur, chili og hvítlaukur er steikt lítillega í pottinum (gott að bæta örlítið af venjulegri olíu við). Laukurinn á ekki að brúnast heldur bara svitna (verða mjúkur og sætur) og því mikilvægt að hreyfa við þessu reglulega þar til tilbúið. Þá er kjúklingnum aftur skellt út á ásamt öllu hráefninu sem eftir er og látið malla í um hálftíma á lágum hita þar til þetta er tilbúið.
 
 
 
Stundum minnka ég vatnið og set þá kókosmjólk líka sem er voða gott og einnig í stað þess að hakka jarðhnetur þá nota ég líka bara stundum hnetusmjör í staðinn. Þetta er í raun ofur einfaldur og dásamlega góður pottréttur sem krefst aðeins ástar og umhyggju svo úr verði veislumatur sem gott er að bera fram með hrísgrjónum og góðu salati. Bon appetit!