föstudagur, 3. mars 2017

Appelsínukaka (Bolo de Laranja)




Þessi kaka er svoooo fljótleg og svoooo góð þegar skella á í eina með kaffinu í snatri. Ekki óalgengt að finna þessa á helstu hverfiskaffihúsunum í Portúgal sem og í heimahúsum ef maður droppar inn í síðdegiskaffi. Ég komst fljótt upp á lagið að henda í eina svona þegar ég bjó í Portúgal þegar þurfti að eiga eitthvað sætt með kaffinu ef gesti bar að garði. 

Hér kemur hin einfalda upprunalega uppskrift en það má gjarnan leika sér með hana og minnka hveiti og bæta við möndlumjöli eða eitthvað annað.


Appelsínukaka (Bolo de Laranja)
Raspaður börkur af 1 appelsínu
safi úr 2 appelsínum
4 egg
1 bolli olía
2 bollar sykur
2 bollar hveiti
1 msk lyftiduft

Sykurlögur:
safi úr 1 appelsínu
2 msk sykur

Öllum hráefnum er blandað saman nema hveiti og lyftidufti og hrært vel í hrærivél þar til blandan verður létt og ljós. Síðan er hveitinu og lyftiduftinu blandað varlega saman við þannig að deigið sé vel fljótandi. Þá er deigið sett í vel smurt, djúpt hringform (eins og á mynd) og bakað í ofni við 180°c í ca 40-45 mínútur eða þar til hægt er að stinga í það með prjóni og hann kemur hreinn út.



Þegar kakan kemur úr ofninum er sykri og appelsínusafa blandað saman í pott og hitað í létt sýróp, göt stungin á kökuna og sýrópinu hellt yfir strax áður en kakan kólnar.



Bom appetit!

föstudagur, 3. febrúar 2017

Saltfiskskökur (Pastéis de Bacalhau)


Saltfiskskökur eða pastéis de bacalhau eru eitt af því dásamlega sem finna má í Portúgal. Sem lystauki, forréttur eða á veisluborðið þá slá þær alltaf í gegn. Líkt og á við um flesta portúgalska rétti þá er einfaldleikinn í fyrirrúmi. Eins og reyndar með saltfiskinn þá þarf smá undirbúning sem hægt er að klára daginn áður, þ.e. að útvatna saltfiskinn og sjóða og sjóða kartöflur og kæla. Það er þó algerlega þess virði!

Í bjórsafninu í Lissabon selja þeir svona kökur fylltar með Queijo da Serra sem er portúgalskur ostur frá Serra da Estrela og aðeins framleiddur úr mjólk sem kemur úr Bordaleira kúm. Osturinn er stolt Portúgals og dásamlega feitur og góður. Ef þið eigið leið til Lissabon þá mæli ég með því að kíkja á bjórsafnið þar sem þeir selja bjór frá gömlu nýlendum Portúgals ásamt því að framleiða sinn eigin bjór og fá sér eina saltfiskköku fyllta með osti. Á safninu er einnig hægt að sjá hvernig þau búa kökurnar til.




Saltfiskskökur (Pastéis de Bacalhau)
300 g útvatnaður saltfiskur, soðinn og beinlaus
300 g kartöflur soðnar
4 egg
1 dl ólífuolía
1 meðalstór laukur fínt hakkaður
2 hvítlauksrif fínt hökkuð
1 búnt steinselja
salt og pipar eftir smekk
olía til steikingar






Best er að nota þurrkaðan saltfisk í þessar kökur, útvatna, sjóða og taka af beinum. Að sjálfsögðu er hægt að stytta sér leið og kaupa saltfisk sem er þegar útvatnaður og nota en mín skoðun er sú að hann er bara ekki eins góður þar sem hann hefur fyrst og fremst ekki sömu áferð. Gott er að undirbúa daginn áður að sjóða fiskinn og kartöflurnar  þá tekur enga stund að skella í degið sem er síðan djúpsteikt. 

Mikilvægt er að eftir að kartöflurnar eru soðnar að leyfa þeim að kólna og þorna dáldið upp, t.d. að geyma þær bara soðnar í hýði á borðinu yfir nótt án þess að setja nokkuð yfir. Ekki gott að þær séu blautar þegar öllu er blandað saman. 

 Þá er að skera laukinn smátt og mýkja á pönnu í nokkrar mínútur. Þegar laukurinn er orðinn glær er hvítlauknum smátt söxuðum bætt við og leyft að mýkjast með í stutta stund, passa bara að það á ekki að steikja lauk og hvítlauk heldur bara mýkja svo gott er að passa að hafa ekki of háan hita og hreyfa vel í á meðan.

Því næst er öllum hráefnum skellt saman í matvinnsluvél og hakkað saman. Ég persónulega nota svona "pulse" þannig að allt hakkast og blandast vel saman án þess þó að verða að algeru mauki. Þannig fæ ég smá bita í deigið sem ég fíla betur en eflaust er þetta smekksatriði. Svo er deigið saltað og piprað eftir smekk.





Þá er bara að skella olíu í pott og kveikja undir og undirbúa kökurnar. Kökurnar eru gerðar þannig að notaðar eru tvær matskeiðar (gott að dýfa aðeins í olíuna áður en skafið er úr deiginu) og deigið mótað í kökur með því að þrýsta milli skeiðanna þannig að þær fái á sig þetta form örlítið ílangar og fallegar. Þetta er ekki flókið en fyrir þá sem ekki eru vanir tekur þetta nokkrar tilraunir en lærist fljótt svo það er bara að æfa sig.

Mikilvægt er að olían sé vel heit þegar kökurnar eru settar ofan í pottinn þannig að þær hrynji ekki í sundur. Ef þær eru mjög lausar í sér þá má skella einu eggi í viðbót saman við deigið og þannig ætti það vandamál að vera úr sögunni. 

Svo er bara að steikja kökurnar þar til þær verða gullin brúnar og taka þær þá uppúr og leggja á pappír til að þerra mest af olíunni og raða þeim svo fallega á disk og bera fram.

Portúgalir eru ekki mikið sósufólk eins og við Íslendingar og myndi þeim því ekki koma til hugar að framreiða þessar kökur með nokkurri sósu en þær eru mjög góðar með t.d. chilli-mæjonesi eða bara sætri chilli-sósu.

bom appetit!





miðvikudagur, 2. september 2015

Sjávarréttapasta á portúgalska vísu (Massada de peixe e marisco)


Ég hélt ég hefði nú prófað það helsta í bragðsinfóníu sjávarrétta hér í Portúgal ... en neeeei það var nú aldeilis ekki svo! Við fjölskyldan ákváðum að skella okkur í frí til Algarve eins og alvöru Portúgalir í byrjun ágúst. Í upphafi ágúst liggur nefninlega umferðin suður á bóginn til syðsta héraðsins þar sem Portúgalir njóta sólar og stranda í fríi frá amstri dagsins. Við ákváðum að skella okkur til Olhao sem er yndislegt fiskiþorp og liggur austan við Faro og koma okkur fyrir þar á tjaldstæði í viku eða svo.

Eftir að hafa ráðfært okkur við heimamenn ákváðum við að stefna á góðan hádegisverð einhvern daginn í siglingaklúbbi Olhao þar sem okkur var tjáð að við fengjum besta sjávarfang bæjarins. Eftirvæntingin var mikil og við urðum heldur ekki fyrir vonbrigðum. Siglingaklúbburinn er staðsettur niðri við höfnina og veitingastaðurinn er með sæti úti og útsýni út á sjó og þar nutum við þessa einstaka hádegisverðar sem verður lengi í minnum hafður.


Það sem gerði þessa upplifun einstaka var að við ákváðum að panta okkur "Massada de Peixe" sem jú ég skildi sem svo að væri pasta með nokkrum tegundum af fiski og skelfiski eins og stóð á matseðlinum og jú ýmsar útgáfur af þessum hefðbundna sjávarrétti hægt að fá víðar. Þetta hafði ég ekki borðað áður og fannst nú af lýsingunni að dæma ekkert sérstaklega spennandi ... en þegar rétturinn kom á borðið og ég fann lyktina af soðinu ... þá uppgötvaði ég hvers ég hafði farið á mis við öll þessi ár! Mynta og fiskur!!!! Aldrei hefði ég trúað því að mynta gæti verið punkturinn yfir i-ið í annars tiltölulega hefðbundnu suðrænu fiskisoði. Þvílík dásemd! Um leið vissi ég að þennan rétt ætlaði ég að ná tökum á og gera að mínum. Því var lagst í rannsóknarvinnu þegar heim var komið og fyrsta tilraun til að búa til jafn bragðgott og dásamlegt "Massada de peixe"var gerð í hádeginu í dag ... og vitir menn ég komst verulega nálægt því að ná bragðinu sem ég vildi.

Þetta er nú kannski ekki neinn mánudagsmatur en ég mæli 100% með þessu í hvaða matarboð sem er - einkum ef ykkur langar að heilla einhvern með smá bragðtvisti!

Massada de peixe e marisco

500 g góður fiskur í bitum s.s. eins og skötuselur
5-700 g rækjur og annar skelfiskur
ólívuolía
1 meðalstór laukur
3 hvítlauksrif
1 græn papríka
2 dl hvítvín
ein dós af niðurskornum tómötum
1-2 msk tómatkraftur
1 l fiskisoð (kraftur + vatn)
1 lárviðarlauf
1 tsk papríkuduft
salt og pipar
250 g makkarónur
2-3 myntustilkar heilir með laufum

Byrja þarf á því að skola fiskinn, þerra og salta vel helst með grófu salti og láta standa í kæli í allt að klukkustund áður en hann er eldaður. Passa þarf einnig að skola skelfiskinn vel og reyna að tryggja eftir bestu getu að ekki séu með skeljar fullar af sandi. Best er að nota stóran pott - helst sem er dáldið víður.




Ég nota hér í rétti fisk með beini eins og sést á myndinni hér að ofan en Portúgalir eru ekki eins viðkvæmir fyrir beini í fisk eins og við Íslendingar.


Næst er að skera laukinn í þunnar sneiðar og mýkja í olíunni. Þegar laukurinn er orðinn verulega sveittur er smátt skornum hvítlauk og gróft skorinni papríku bætt saman við og leyft að svitna örlítið áður en vökvum er bætt við.




Þá er hvítvíninu bætt við og leyft að sjóða aðeins upp áður en bætt er við tómötum, krafti, lárviðarlaufi, papríkudufti og fiskisoði. Nú erum við eiginlega komin með allt það hefðbundna í gott undirstöðusoð fyrir ýmsar gerðir af portúgölskum fisksoðningum og þá er bara eftir að skella makkarónunum í pottinn. Passa þarf að þær festist ekki við botninn og verði þar að klessu þegar þær fara að mýkjast þar sem fiskurinn og skelfiskurinn fara svo ofaná þær því þarf við og við fyrst um sinn að hræra varlega í pottinum.


Makkarónurnar þurfa að sjóða í ca 5 mínútur áður en fiskurinn er settur í pottinn. 






Svo er gott að láta fiskinn sjóða í 5 mínútur áður en skelfiskurinn er settur í pottinn ásamt myntustilkunum og þá má reikna með ca 5 mínútum þar til potturinn er tekin af hita og látið standa í 5 mínútur í viðbót áður en borið er fram með nýju og stökku brauði og ísköldu hvítvíni.


Bon appetit!

þriðjudagur, 18. ágúst 2015

Portúgölsk baunakássa (Feijoada Portuguesa)

Nú þegar haustlægðirnar eru farnar að gera vart við sig norðar í Atlantshafinu er við hæfi að setja inn eina uppskrift af hinni frægu "feijoada". "Feijoada" er til í mörgum útgáfum en í grunninn er um að ræða baunakássu með hvítum, nýrna eða svörtum baunum, svína og/eða nauta/kýrkjöti ásamt einhvers konar pylsum. Gömlu nýlendurnar eiga hver um sig sína eigin útgáfu af "feijoada" og er baunakássa Brasilíu (feijoada brasileira) líklega frægust þeirra og sú sem flestir þekkja. Í Brasilíu er notast mest við reykt kjöt og pylsur ásamt svínseyrum og ýmsum öðrum hlutum svínsins sem við eigum erfitt með að nálgast á Íslandi.

Feijoada portuguesa inniheldur hins vegar tiltölulega aðgengilegt hráefni fyrir okkur Íslendinga nema ef vera skyldi blóðpylsan (morcela) sem er soðin í baunakássunni og borin fram með. Ég hef því útfært þetta á þann hátt að nota reykta hefðbundna chorrizo (sú besta fæst í Pylsumeistaranum við Hrísateig) og sjóða það beint í kássunni sjálfri - engu síðra að mínu mati! Annað sem ég hef útfært eftir að hafa eldað þennan portúgalska rétt á Íslandi er að hafa hlutfall kjöts heldur meira en bauna þar sem reynslan hefur sýnt mér að Íslendingar vilja heldur meira kjöt í kássuna sína en Portúgalir eru vanir að fá!



Feijoada á portuguesa

1 kg grísarif (svínarif)
3 lárviðarlauf
2 meðalstórir laukar
3 stór hvítlauksrif
2 dósir hvítar baunir
3 stórir þroskaðir tómatar
2 msk tómatpúrra
1 svínakraftur
ca 3-400 g chorrizo
2 meðalstórar gulrætur
steinselja eftir smekk
chilli og papríka eftir smekk
salt og pipar


Fyrst er að setja rifin í pott með vatni, krafti og lárviðarlaufum og leyfa þessu að sjóða saman í u.þ.b. klukkustund. Mér finnst best að nota grísarif og læt þá saga þau helst í tvennt (hvert rif) til þess að fá litla rifjarbita sem hentar betur í svona pottrétt. Þegar kjötið hefur soðið við lágan hita í ca. klukkutíma er soðið síað frá og geymt til að bleyta upp í kássunni eftir þörfum (notast sjaldan við allt soðið en það er smekksatriði hversu blaut kássan skal vera).


Þá er hafist handa við að skera grænmetið og útbúa kássuna! Fyrst er að skera gulrætur og chorrizo í sneiðar og bæta saman við kjötið ásamt dálitlu af soðinu.




Þá er að skera laukinn í strimla og hvítlaukinn smátt og svita á pönnu. 


Athugið að laukurinn á bara að svitna en ekki steikjast.


Þegar laukurinn hefur svitnað dálítið er hvítlauknum, tómötunum í bitum ásamt steinseljunni bætt saman við og látið malla í stutta stund áður en öllu er síðan blandað saman við rifin í pottinum ásamt smá chilli og papríkukryddi.



Gott er að hafa bara stillt á lágan hita og hafa alltaf dáldinn vökva í pottinum svo ekkert brenni við heldur nái að malla saman í góða kássu.



Þá er bara síðast að bæta hvítu baununum saman við, krydda með salti og pipar eftir smekk og leyfa þessu öllu að hitna vel í gegn og stilla sig saman svo úr verði dásamleg feijoada á portúgalska vísu. 

Vissulega er hægt að leggja baunir í bleyti 6 - 12 tímum áður, sjóða og bæta saman við. Það kallar hins vegar á langan og góðan undirbúning. Þegar því ber ekki við er fínt að notast bara við baunir úr dós!

Gott er síðan að leyfa þessu að malla saman við lágan hita í ca 15 - 20 mínútur áður en borið er fram.


Svo er bara að bera þetta fram með góðum hvítum hrísgrjónum, fersku salati ef vill og góðu brauði.


Bon appetit!

laugardagur, 8. nóvember 2014

Saltfiskur steiktur á portúgalska vísu (Bacalhau á Brás)

Þessi réttur er líklega minn uppáhalds saltfiskréttur frá Portúgal og þá eru þeir margir sem mér þykir góðir. Ég man þegar ég fékk þennan rétt í fyrsta sinn á litlum, dæmigerðum portúgölskum veitingastað í hádeginu á sólríkum degi í Setúbal. Mér leið eins og ég væri að borða íslenskan plokkfisk, nema bara miklu betri plokkfisk en ég hafði nokkurn tíman bragðað áður!

Saltfiskur er enginn mánudagsmatur í Portúgal þar sem hann er nokkuð dýr, en þegar halda skal veislu jafnast fátt á við saltfiskrétt sem portúgalir kunna sko aldeilis að matreiða á ýmsa vegu. Oft er sagt að það séu 365 mismunandi aðferðir við að elda saltfisk í Portúgal og ég efast ekki um að það sé satt. Á jólunum borða þeir þó salfiskinn soðinn með kartöflum eins og ég man eftir að hafa fengið hann á Íslandi sem barn og ekki þótt spennandi. Þannig er hann nú samt borðaður á aðfangadagskvöld í Portúgal og þykir ómissandi hluti jólahaldsins.



Saltfiskur steiktur á portúgalska vísu (Bacalhau á Brás)

um 1/2 kg sólþurrkaður saltfiskur
2 lárviðarlauf
1 stórt box Pick-nick
1 l mjólk
3 - 4 hvítlauksrif
1 meðalstór laukur
6 egg
svartur pipar
olía til steikingar
eitt búnt steinselja
svartar ólífur

Fyrst er nauðsynlegt að útvatna saltfiskinn. Það geri ég annað hvort með því að láta hann liggja í bleyti í ca sólahring og skipta reglulega um vatn eða ef ég er ekki nógu skipulögð þá læt ég hann í pott undir rennandi vatn í ca 3 - 4 klukkutíma. Þetta er aðeins meira mál en að kaupa hann tilbúinn útvatnaðan í búð en trúið mér það er algerlega þess virði. Saltfiskurinn er svo miklu, miklu betri svona og hefur áferðina og þéttleikann sem þarf í portúgalska saltfiskrétti. Þegar bitarnir hafa verið útvatnaðir eru þeir settir í pott með mjólk (ef mjólkin nær ekki alveg að hylja bitana í pottinum er allt í lagi að bæta smá vatni við svo fiskurinn sé í kafi) og lárviðarlaufum. Suðan er látin koma upp og fiskurinn síðan látinn malla í ca 15 mínútur við vægan hita áður en slökkt er undir. 


Þegar bitarnir eru soðnir eru þeirr veiddir upp úr soðinu og látnir kólna aðeins svo hægt sé með góðu móti að pilla fiskinn frá roði og beini. Svo er fiskurinn mulinn í sundur - svona næstum stappaður svo hann sé ekki í of stórum bitum.


Þegar það er klárt er hægt að hefjast handa við að útbúa yndislegt og ljúffengt bacalhau á brás!


Fyrst er laukur og hvítlaukur skorið smátt og mýkt á pönnu í olíu. Því næst er saltfisknum sem búið er að mylja í sundur bætt við ásamt kartöflustráum og eggjum (passið að hafa pönnuna ekki of heita í þessu skrefi svo eggin nái að þekja fiskinn vel áður en þau steikjast í gegn) og blandað vel saman. "Brás" stendur fyrir að eitthvað sé létt steikt eða eins og á ensku kallast "braised" og því þarf að passa að hafa ekki of háan hita við steikinguna og hræra vel í á meðan. Þegar rétturinn er orðinn nokkuð þurr (þ.e. eggin hafa steikst) og orðinn nokkuð þéttur í sér er saxaðri steinselju bætt við ásamt ólífum. Skemmtilegt er að bera réttinn á borð í fallegu fati þar sem tómatsneiðum hefur verið raðað ofaná.


Gott að bera fram með góðu salati. Bon Appetit!


fimmtudagur, 30. október 2014

Moscatel de Setúbal

Moscatel de Setúbal

 
 
Íslendingar þekkja helst vínin frá Porto. Þau vín eru framleidd úr þrúgum sem vaxa í Douro héraðinu í norður Portúgal. Þar sem ég bjó nú í Setúbal og á helstu tengsl mín á því svæði (rétt sunnan við Lissabon) þykir mér við hæfi að hefja umfjöllun um portúgölsk vín á að segja ykkur aðeins frá Moscatel sem er mitt uppáhaldseftirréttarvín. Ekki þykir mér heldur verra að fá mér einn slíkan í fordrykk ef svo ber undir.
 
Þekktustu vínin frá Portúgal eru eflaust rósavínið Matteus, Púrtvín og Madeira vín.Moscatel er ekki ósvipað Púrtvíni að því leiti að það er styrkt léttvín og flokkast undir svokölluð sæt eftirréttavín. Moscatel er unnið úr þrúgum sem heita Múskat eða Múskatel og eru þær til bæði rauðar og hvítar. Múskat þrúgur eru afar bragðmiklar og bragðið skilar sér vel í vínið sjálft. Einkennandi er bragð af vínberjum, sítrus og blómum. Sumum þykir það jafnvel of bragðmikið en það verður líkt og púrtvínið mýkra og bragðbetra með aldrinum.
 
Upprunalega var Moscatel búið til úr a.m.k. 67% Múskatþrúgum en undir reglum Evrópusambandsins má víst ekki kalla vínið Moscatel nema það innihaldi að lágmarki 85% Múskatþrúgur. Því eru í raun mikið af Moscatel vínum í dag seld sem "Setúbal" en gæðavínin innihalda 85% af Roxo-Múskatþrúgum sem þykir best.
 
Athugið að einnig er í dag meira af Moscatel sem framleitt er af nokkrum framleiðendum í Douro héraðinu en þær þrúgur eru þó aðeins annað kvæmi Múskatþrúganna en þeirra sem notaðar eru í Moscatel de Setúbal og því ekki sama bragð, ásamt því að allar veðurastæður eru ólíkar í norður Portúgal frá þeim aðstæðum sem skapast í hæðunum við Atlantshafið fyrir mitt landið.
 
José María Da Fonseca er talinn einn elsti framleiðandi Moscatel og helgaði sig þróun og tækninýjungum við framleiðslu á vínum og styrkingu þeirra. Fyrirtækið sem hann stofnaði er enn í dag með stærstu og virtustu vínframleiðenda í Portúgal, en vínframleiðsla fyrirtækisins nær yfir um 700 hektara land, að mestu í Arrabida þjóðgarðinum sem liggur í hæðunum fyrir ofan borgina Setúbal.
 
Því miður fást vínin frá José María Da Fonseca ekki í vínbúðinni á Íslandi, a.m.k. enn sem komið er né heldur Moscatel de Setúbal. Vonandi verður bætt úr því en þangað til þá skora ég á fólk sem á leið um Portúgal eða þau lönd þar sem vínin eru seld (t.d. Noregur og Bretland) að fá sér eina flösku til að smakka.

þriðjudagur, 28. október 2014

Brauðbúðingur (Pudim de Pão)

Þessi eftirréttur er alger snilld þegar nýta þarf brauðafganga heimilisins. Portúgalir eru ekki þekktir fyrir mikla matarsóun og duglegir að nýta allt sem til fellur. Þessi dásamlegi brauðbúðingur er fljótlegt að gera en þarf síðan reyndar að kólna vel í ískáp áður en hægt er að bera fram. Tilvalið að gera kvöldið áður en á að nota hann en fyrirhöfnin er lítil og bragðið svíkur engan.
 
 

Brauðbúðingur (Pudim de pão)

10 - 12 gamlar brauðsneiðar
1 líter mjólk
18 msk sykur
5 egg
sykursýróp (soðið saman sykur og vatn)
 
Byrjið á því að stilla ofninn á 200°. Setjið síðan allt nema sýrópið í matvinnsluvél og blanda vel saman í kekkjalaust deig. Bræðið síðan sykurinn í smá vatni við lágan hita þar til hann breytist í sýróp og smyrjið hringform með gati í miðjunni að innan með sýrópinu. Búðingurinn er síðan settur í formið yfir sýrópið.
Leggið formið í vatnsbað, t.d. í ofnskúffu eða fat með vatni og inn í ofn í ca 40 - 50 mínútur eða þar til búðingurinn er orðinn stífur.
Sett í kæli í 2 tíma þar til búðingurinn er orðinn vel kaldur en þá ætti hann að losna auðveldlega úr forminu. Bon appetit!
 
 
Athugið að magnið af brauði er það sem ræður því hversu þéttur í sér búðingurinn verður og því má auka það ef þið viljið hafa hann þéttari.