fimmtudagur, 30. október 2014

Moscatel de Setúbal

Moscatel de Setúbal

 
 
Íslendingar þekkja helst vínin frá Porto. Þau vín eru framleidd úr þrúgum sem vaxa í Douro héraðinu í norður Portúgal. Þar sem ég bjó nú í Setúbal og á helstu tengsl mín á því svæði (rétt sunnan við Lissabon) þykir mér við hæfi að hefja umfjöllun um portúgölsk vín á að segja ykkur aðeins frá Moscatel sem er mitt uppáhaldseftirréttarvín. Ekki þykir mér heldur verra að fá mér einn slíkan í fordrykk ef svo ber undir.
 
Þekktustu vínin frá Portúgal eru eflaust rósavínið Matteus, Púrtvín og Madeira vín.Moscatel er ekki ósvipað Púrtvíni að því leiti að það er styrkt léttvín og flokkast undir svokölluð sæt eftirréttavín. Moscatel er unnið úr þrúgum sem heita Múskat eða Múskatel og eru þær til bæði rauðar og hvítar. Múskat þrúgur eru afar bragðmiklar og bragðið skilar sér vel í vínið sjálft. Einkennandi er bragð af vínberjum, sítrus og blómum. Sumum þykir það jafnvel of bragðmikið en það verður líkt og púrtvínið mýkra og bragðbetra með aldrinum.
 
Upprunalega var Moscatel búið til úr a.m.k. 67% Múskatþrúgum en undir reglum Evrópusambandsins má víst ekki kalla vínið Moscatel nema það innihaldi að lágmarki 85% Múskatþrúgur. Því eru í raun mikið af Moscatel vínum í dag seld sem "Setúbal" en gæðavínin innihalda 85% af Roxo-Múskatþrúgum sem þykir best.
 
Athugið að einnig er í dag meira af Moscatel sem framleitt er af nokkrum framleiðendum í Douro héraðinu en þær þrúgur eru þó aðeins annað kvæmi Múskatþrúganna en þeirra sem notaðar eru í Moscatel de Setúbal og því ekki sama bragð, ásamt því að allar veðurastæður eru ólíkar í norður Portúgal frá þeim aðstæðum sem skapast í hæðunum við Atlantshafið fyrir mitt landið.
 
José María Da Fonseca er talinn einn elsti framleiðandi Moscatel og helgaði sig þróun og tækninýjungum við framleiðslu á vínum og styrkingu þeirra. Fyrirtækið sem hann stofnaði er enn í dag með stærstu og virtustu vínframleiðenda í Portúgal, en vínframleiðsla fyrirtækisins nær yfir um 700 hektara land, að mestu í Arrabida þjóðgarðinum sem liggur í hæðunum fyrir ofan borgina Setúbal.
 
Því miður fást vínin frá José María Da Fonseca ekki í vínbúðinni á Íslandi, a.m.k. enn sem komið er né heldur Moscatel de Setúbal. Vonandi verður bætt úr því en þangað til þá skora ég á fólk sem á leið um Portúgal eða þau lönd þar sem vínin eru seld (t.d. Noregur og Bretland) að fá sér eina flösku til að smakka.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli